Sport

Chambers fær að keppa á Ólympíuleikunum í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Breska Ólympíusambandið hefur verið skikkað til láta af reglu sinni þess efnis að íþróttamenn sem falla einu sinni á lyfjaprófi megi aldrei aftur keppa á Ólympíuleikum fyrir hönd þjóðarinnar.

Þetta var niðurstaða Íþróttadómstólsins í Lausanne í Sviss en alþjóðlega lyfjaeftirlitsnefndin Wada höfðaði málið gegn Bretunum.

Íþróttamenn sem falla á lyfjaprófi fara í tveggja ára keppnisbann en mega svo taka aftur þátt í keppni, þar á meðal Ólympíuleikum. Breska Ólympíusambandið hefur hins vegar haft þá sérreglu um sína íþróttamenn að þeir sem falla einu sinni á lyfjaprófi verða aldrei sendir á Ólympíuleika.

Sagði í niðurstöðu dómsins að nauðsynlegt væri að forráðamenn íþróttahreyfingarinnar væru samtaka í baráttu sinni gegn ólöglegri lyfjanotkun. Því þyrftu allir að fara eftir sömu reglunum.

Þetta þýðir að spretthlauparinn Dwain Chambers má keppa á leikunum í Lundúnum í sumar en hann féll á lyfjaprófi fyrir níu árum síðan.

Chambers hefur unnið til verðlauna í 100 m hlaupi á HM og EM, bæði utanhúss og innanhúss. Hann hefur einu sinni keppt á Ólympíuleikum en það gerði hann árið 2000 í Sydney. Þá hafnaði hann í 4. sæti í 100 m hlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×