Enski boltinn

Mancini dregur í land: Balotelli spilar með City aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini segist reiðubúinn að láta sóknarmanninn Mario Balotelli spila með Manchester City á nýjan leik þrátt fyrir að hafa fengið þrjú rauð spjöld á tímabilinu.

Balotelli fékk rautt í tapleik City gegn Arsenal um helgina og sagði Mancini eftir leikinn að Balotelli væri búinn að vera hjá félaginu. Hann myndi þar að auki líklega selja leikmanninn í sumar.

Balotelli sá eftir öllu og baðst afsökunar. Til allra lukku - fyrir hann - fékk hann þriggja leikja bann en ekki níu leikja eins og raunin hefði orðið hefði enska knattspyrnusambandið ákveðið að refsa honum fyrir tæklingu á Alex Song sem dómari leiksins tók ekki eftir.

„Hann fékk bara þriggja leikja bann og er ég ánægður fyrir hans hönd," sagði Mancini eftir 4-0 sigur sinna manna á West Brom í gær. „Ég hélt að Mario yrði dæmdur í 6-7 leikja bann og þess vegna taldi ég að hann myndi ekki spila aftur á tímabilinu."

„Hann mun því ná leiknum gegn Manchester United. Hann verður tilbúinn þá," sagði Mancini.

Þrátt fyrir að City hafi í gær minnkað forystu United í fimm stig og að liðin eigi eftir að mætast innbyrðis telur Mancini að titilbaráttunni sé lokið þetta tímabilið.

Grannaslagur United og City fer fram mánudaginn 30. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×