Enski boltinn

Læknir Bolton: Hjarta Fabrice Muamba sló ekki í 78 mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabrice Muamba liggur hér í grasinu.
Fabrice Muamba liggur hér í grasinu. Mynd/AP
Jonathan Tobin, læknir Bolton, hefur nú greint frá því að hjarta Fabrice Muamba hafi ekki slegið af sjálfsdáðum í 78 mínútur eftir að Muamba hneig niður rétt fyrir hálfleik í bikarleik Tottenham og Bolton á laugardaginn.

Læknum og sjúkraliðum á vellinum tókst að halda í honum lífi og Muamba er nú allur að koma til á sjúkrahúsinu.

Hjarta Fabrice Muamba tók ekki við sér í þær 48 mínútur sem liður frá því að hann hneig niður þar til að hann var kominn upp á sjúkrahús. Það tók ennfremur hálftíma til viðbótar að koma hjartslætti hans í eðlilegan farveg á spítalanum.

„Í raun var hann dáinn á þessum tíma," sagði Jonathan Tobin, læknir Bolton. Tobin viðurkenndi einnig að hafa brotnað saman á sjúkrahúsinu þegar hann áttaði sig almennilega á alvarleika málsins.

„Ef þið viljið nota orðið kraftaverk þá á það við að þessu sinni," sagði hjartalæknirinn Andrew Deaner sem er stuðningsmaður Tottenham og var fyrir tilviljun staddur á vellinum. Deaner hljóp inn á völlinn og átti mikinn þátt í björgun Muamba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×