Enski boltinn

Mancini: Nasri getur orðið eins og Xavi fyrir Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri skorar hér sigurmarkið í gær.
Samir Nasri skorar hér sigurmarkið í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur mikla trú á Frakkanum Samir Nasri en Nasri skoraði sigurmark City í stórleiknum á móti Chelsea í gærkvöldi. Manchester City lenti undir í leiknum en tryggði sér mikilvæg þrjú stig í toppbaráttunni með því að skora tvö mörk á lokakaflanum.

„Sami stóð sig vel en hann getur gert enn betur. Hann getur bætt sig því hann er toppleikmaður. Ef hann gerir það þá getur hann orðið eins og David Silva eða Xavi," sagði Roberto Mancini sem hefur verið óhræddur að setja pressu á þennan 24 ára gamla Frakka.

Samir Nasri kom til Manchester City frá Arsenal síðasta haust. Hann byrjaði vel en hefur ekki fundið sig eins vel síðan. Í gær reyndist hann hinsvegar gríðarlega mikilvægur fyrir City í titilbaráttunni á móti Manchester United.

Samir Nasri hefur nú skorað 4 mörk og gefið 7 stoðsendingar í 23 deildarleikjum með Manchester City á tímabilinu en sex af stoðsendingunum hans komu í fyrstu sex deildarleikjunum með City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×