Lífið

Láta ljós sitt skína í Gúglaðu betur

Þeir sem telja sig vita öll svörin í spurningaþættinum Gettu betur geta látið ljós sitt skína þau kvöld sem þátturinn fer fram. Náman stendur nú annað árið í röð fyrir keppninni Gúglaðu betur á Facebook-síðu sinni en hún hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu.

Gúglaðu betur gengur þannig fyrir sig að umsjónarmaður keppninnar, Steinþór Helgi Arnsteinsson, spyr einnar spurningar og gefur þrjár vísbendingar á Facebook-síðunni til að koma þátttakendum á sporið. Þeir sem taka þátt eiga síðan að skrifa svarið á síðuna. Engar takmarkanir eru á notkun leitarvéla og símtölum til vina og fullt samráð um svör er æskilegt. Fyrsti keppandinn sem svarar rétt fær 10 þúsund krónur í verðlaun. Annar heppinn þátttakandi verður síðan dreginn út og fær hann einnig 10 þúsund krónur.

Þeir sem taka þátt þurfa yfirleitt að hafa hraðar hendur því yfirleitt svara um 100 manns á örfáum mínútum eftir fyrstu vísbendingu. Í þessarri viku fara fram tvær keppnir á meðan Gettu betur er í loftinu, bæði í kvöld og á föstudagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.