Enski boltinn

Redknapp: Mesta vitleysan sem ég hef heyrt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, gefur lítið fyrir þær kenningar að Tottenham sé að missa dampinn í ensku úrvalsdeildinni vegna umræðunnar um að hann sé að fara að taka við enska landsliðinu eða vegna pressunnar á að liðið tryggi sér sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

Tottenham hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum og þegar búið að missa þriðja sætið til nágrannanna í Arsenal. Fjórða sætið gæti líka verið í hættu ef liðið tapar á móti Chelsea á Stamford Bridge á morgun. Chelsea er fimm stigum á eftir Tottenham en getur minnkað muninn í aðeins tvö stig.

„Þetta er mesta vitleysan sem ég hef heyrt," sagði Harry Redknapp um þessa kenningu á blaðamannafundi í dag. „Leikmönnunum er alveg sama um það hvort ég verði áfram stjóri liðsins eða ekki. Ég er öruggur á því að þeir missa ekki svefn yfir því," sagði Redknapp.

„Fótboltamenn hugsa bara að mæta á æfingar og að spila næsta leik. Þeir eru fljótir að sætta sig við nýjan kóng. Þannig er bara fótboltinn," sagði Redknapp.

Tottenham var aðeins búið að tapa 2 leikum af 22 áður en liðið steinlá á móti Arsenal 26. febrúar síðastliðinn en í kjölfarið fylgdu töp á móti Manchester United og Everton. Liðið slapp síðan með 1-1 jafntefli á móti Stoke í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×