Enski boltinn

Gylfi: Frábært að leggja eitt besta lið heims af velli

Gylfi í baráttunni við Yaya Toure í dag.
Gylfi í baráttunni við Yaya Toure í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson var í eldlínunni með Swansea í dag er liðið gerði sér lítið fyrir og skellti Man. City á heimavelli sínum. City missti fyrir vikið toppsætið í deildinni þar sem Man. Utd vann sinn leik á sama tíma.

"Þetta var virkilega flott hjá okkur. Við fengum þrjú stig á móti frábæru liði og það skipti mestu máli," sagði Gylfi við talkSPORT eftir leik.

"Við vorum að verjast vel í þessum leik og markið hans Moore gerði þetta að frábærum degi fyrir okkur."

Gylfi hefur slegið í gegn síðan hann kom til Swansea í janúar og átti ágætis leik í dag.

"Mér fannst við stýra leiknum lengstum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við gáfum kannski aðeins eftir í síðari hálfleik en héldum áfram að verjast vel og það er nauðsynlegt í þessari deild ef lið ætla að vinna leiki.

"Það er mikið sjálfstraust í okkar liði núna og frábær hreyfing á öllu liðinu í leikjum. Það gátu allir séð í dag er við spiluðum gegn einu besta lið heims og unnum það sem er frábært. Við höfum sjálfstraustið til þess að spila okkar leik gegn hvaða liði sem er, líka þeim bestu og það bar árangur í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×