Enski boltinn

Heiðarslaust lið QPR í frjálsu falli og útlitið svart

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mark Hughes kvartar yfir dómgæslunni á Reebok-vellinum. Einkenni fallliða er ekki síst það að svo virðist sem ekkert falli með þeim.
Mark Hughes kvartar yfir dómgæslunni á Reebok-vellinum. Einkenni fallliða er ekki síst það að svo virðist sem ekkert falli með þeim. Nordic Photos / Getty
Lið QPR í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu beið enn einn ósigurinn er liðið sótti Bolton heim um helgina. Eftir tapið skaust Bolton upp úr fallsæti á kostnað QPR. Útlitið er svo sannarlega svart á Loftus Road í Lundúnum.

Eftir ágætisbyrjun á tímabilinu í haust fór liðið flatt í desember og upphafi janúarmánaðar. Liðið gerði tvö jafntefli og tapaði fimm leikjum í sjö leikja sigurlausri hrinu sem kostaði knattspyrnustjórann Neil Warnock starf sitt.

Warnock tókst á mettíma að koma QPR í ensku úrvalsdeildina eftir að hafa tekið við liðinu þegar það var í miklu ströggli í B-deildinni í mars 2010. Ári síðar fögnuðu lærisveinar hans sigri í B-deildinni. Það var í sjöunda skipti sem Warnock fór með lið upp um deild en hann sagði afrekið sitt mesta á löngum stjóraferli.

Á meðan Norwich og Swansea, hinir nýliðarnir í deildinni, hafa heillað knattspyrnuunnendur og eru í góðri stöðu hefur farið lítið fyrir lofi í garð QPR. Þeirra mest skapandi leikmaður í B-deildinni á síðustu leiktíð, Marokkóbúinn Adel Taraabt, hefur glímt við meiðsli og var auk þess ekki í náðinni hjá Warnock.

Taraabt var kjörinn besti leikmaðurinn í B-deildinni á síðasta ári og munar um fjarveru hans. Hlutverk reynsluboltans og meiðslapésans Kieron Dyer verið öllu minna en reiknað var með. Kappinn hefur verið frá, jú þú giskaðir á það, vegna meiðsla. Þá hefur frammistaða Shaun Wright-Phillips, sem átti að miðla af úrvalsdeildarreynslu sinni og efla sóknarleik QPR, valdið vonbrigðum.

Stjóraskiptin ekki breytt neinu

Tony Fernandez skipti um stjóra í brúnni í janúar og mætti Mark Hughes til starfa. Óhætt er að segja að þau skipti hafi ekki borið árangur enn sem komið er. Hughes hefur fengið fimm stig af 24 mögulegum (21% árangur) sem er hlutfallslega slakari árangur en hjá Warnock (28% árangur).

Hughes fékk fyrrum lærisvein sinn hjá Fulham, Bobby Zamora, til liðs við félagið í janúarglugganum og kappinn skoraði í sínum fyrsta leik.

Slíkt hið sama gerði Frakkinn Dijbril Cisse en fékk reisupassann í næsta leik á eftir. Cisse gæti þó, líkt og Zamora, reynst mikilvægur í botnslagnum en hann var aftur á skotskónum gegn Bolton um helgina og hefur skorað tvö mörk í „rúmlega" tveimur leikjum.

Þegar leikjalisti QPR næstu vikurnar er skoðaður er lítil ástæða til bjartsýni. Liðið á til að mynda eftir að mæta sex efstu liðum deildarinnar en tíu leikir lifa móts. Síðasti leikur tímabilsins er á Etihad-vellinum í Manchester.

Heiðar Helguson hefur verið frá keppni síðan í lok janúar þegar hann fór af velli í bikarleik gegn Chelsea (sem tapaðist) vegna nárameiðsla.

Leikjalistinn

Í mars:

Liverpool (heima)

Sunderland (úti)

Arsenal (heima)

Í apríl

Man. Utd (úti)

Swansea (heima)

WBA (úti)

Tottenham (heima)

Chelsea (úti)

Í maí

Stoke (heima)

Manchester City (úti)

Líklega eru það aðeins bjartsýnustu stuðningsmenn QPR sem hafa trú á því að liðið haldi sæti sínu í deildinni. Þeir geta þakkað fyrir að fjögur önnur lið hafa skorið sig úr í nokkuð afgerandi fallbaráttu með slakri frammistöðu á tímabilinu. Þegar svo er skipta innbyrðisviðureignir botnliðanna öllu máli. Því er líklegt að tapið gegn Bolton á Reebok-vellinum um helgina reynist liðinu dýrkeypt þegar uppi verður staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×