Enski boltinn

Vermaelen tryggði Arsenal sigur í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Vermaelen fagnar sigurmarki Arsenal í kvöld.
Thomas Vermaelen fagnar sigurmarki Arsenal í kvöld. Mynd/AP
Sigurganga Arsenal í ensku úrvalsdeildinni hélt áfram í kvöld þegar liðið vann 2-1 sigur á Newcastle í einvígi liðanna í fjórða og sjötta sæti deildarinnar. Það stefndi allt í jafntefli þegar belgíski miðvörðurinn Thomas Vermaelen skoraði sigurmarkið í uppbótartíma en þetta var fimmti deildarsigur Arsenal í röð.

Arsenal var mun betra liðið í þessum leik en það leit út fyrir að Newcastle-menn væru að halda út og fara með stig með sér norður til Newcastle. Arsenal náði hinsvegar að skora dramatískt sigurmark á fjórðu mínútu í uppbótartíma og nágrannar þeirra í Norður London (Tottenham) eru nú aðeins einu stigi á undan þeim.

Fyrstu tvö mörk leiksins komu með innan við mínútu millibili snemma í leiknum. Hatem Ben Arfa kom Newcastle í 1-0 á 14. mínútu eftir laglega sókn og sendingu frá Gabriel Obertan. Ben Arfa fór þá illa með Kieran Gibbs og skoraði með góðu skoti úr teignum.

Robin van Persie var ekki lengi að jafna leikinn því hann skoraði í næstu sókn. Van Persie fékk þá boltann frá Theo Walcott, plataði Mike Williamson og skoraði með óverjandi skoti.

Arsenal fékk nokkur mjög góð færi til að tryggja sér sigur á lokamínútum leiksins en það var ekki fyrr en Belginn Thomas Vermaelen skellti sér fram í sóknina í lokin og skoraði dýrmætt sigurmark eftir fyrirgjöf frá Theo Walcott.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×