Enski boltinn

Tækifæri fyrir Jóhann Berg - liðsfélagi hans hjá AZ fer til Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brett Holman kemur hér inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson í einum leik AZ í vetur.
Brett Holman kemur hér inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson í einum leik AZ í vetur. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson ætti að fá fleiri tækifæri með hollenska liðinu AZ Alkmaar á næsta tímabili eftir að forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Aston Villa tilkynntu í dag að ástralski vængmaðurinn Brett Holman færi til Villa í sumar.

Brett Holman er 27 ára gamall og spilar aðallega á vinstri vængnum eða fyrir aftan framherjann eins og Jóhann Berg. Jóhann Berg hefur aðeins verið 3 sinnum í byrjunarliði AZ í hollensku deildinni í vetur en Holman hefur byrjað 22 leiki.

Holman er með 4 mörk og 10 stoðsendingar í 23 leikjum í vetur en samningur hans við AZ rennur út í sumar og fer hann því á frjálsri sölu til Aston Villa. Jóhann Berg er sex árum yngri og er með samning til ársins 2014.

„Hann mun kom með mikla reynslu inn í hópinn," sagði Alex McLeish, stjóri Aston Villa en Holman kom til AZ árið 2008 og hefur spilað í hollensku deildinni frá 2002. Holman hefur skorað 8 mörk í 53 landsleikjum með Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×