Enski boltinn

Gylfi með tvö mörk fyrir Swansea í 3-0 útisigri á Fulham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvö mörk fyrir Swansea í 3-0 útisigri á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag og heldur því áfram að slá í gegn í bestu deild í heimi.

Íslenski miðjumaðurinn sem er á láni frá þýska liðinu Hoffenheim hefur þar með skorað fimm mörk í níu deildarleikjum með Swansea og Swansea komst upp í áttunda sæti deildarinnar með sínum þriðja sigri í röð.

Swansea var með góð tök á leiknum allan tímann og Fulham-liðið komst lítið áfram gegn vel spilandi liði Swansea. Gylfi var síðan stórhættulegur allan leikinn eins og hann hefur verið allt síðan að kom fyrst við sögu hjá velska liðinu.

Gylfi fékk frábært færi á 29. mínútu eftir laglega sókn en skot hans frá vítateigslínunni rétt strauk stöngina. Gylfi bætti fyrir þetta  á 36. mínútu þegar hann skoraði með skutluskalla úr markteignum eftir fyrirgjöf Wayne Routledge og sendingu frá Scott Sinclair.

Gylfi var ekki hættur því hann skoraði sitt annað mark á 66. mínútu. Gylfi hóf sóknina keyrði upp að vítateignum, gaf út til hægri á Wayne Routledge og fékk síðan boltann aftur inn í teiginn og skoraði af öryggi.

Joe Allen skoraði þriðja mark Swansea á 77. mínútu eftir sendingu frá Scott Sinclair og varnarmistök Philippe Senderos í liði Fulham.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk síðan heiðursskiptingu í uppbótartíma leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×