Enski boltinn

Everton og Sunderland þurfa að mætast aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton og Sunderland þurfa að spila annan leik í átta liða úrslitum enska bikarsins eftir að liðin gerðu 1-1 jafntefli á Goodison Park í dag. Sunderland komst yfir í upphafi leiks en Everton jafnaði fljótlega og var síðan miklu betra liðið í seinni hálfleiknum. Everton-mönnum tókst hinsvegar ekki að skora og Sunderland fær því annan leik á heimavelli sínum.

Sunderland byrjaði leikinn vel og bakvörðurinn Phillip Bardsley kom liðinu í 1-0 á 12. mínútu með þrumuskoti af löngu færi eftir að Jack Colback tók stutta aukaspyrnu út á kanti. Leikmenn Everton sofnuðu á verðinum en það bjóst enginn við að Bardsley myndi reyna þetta.

Everton vaknaði við markið og Tim Cahill var búinn að jafna leikinn eftir ellefu mínútur. Tim Cahill skallaði þá fram skalla Nikica Jelavic eftir flotta fyrirgjöf frá Leighton Baines.

Fyrri hálfleikinn var frábær skemmtun enda mikill hraði í leiknum en leikurinn róaðist talsvert í seinni hálfleiknum. Everton liðið var sterkara liðið í seinni hálfleiknum en Sunderland varðist vel og freistaði þess að tryggja sér annan leik á sínum heimavelli.

Everton átti að fá vítaspyrnu á 65. mínútu þegar John O'Shea varði skalla Nikica Jelavic með hendi. Andre Marriner dæmdi hinsvegar ekki neitt.

Belgíski markvörðurinn Simon Mignolet varði frábærlega í tvígang á 87. mínútu og bjargaði sínum mönnum í Sunderland. Fyrst varði hann glæsilega skalla John Heitinga og síðan náði hann einnig að verja frá Nikica Jelavic sem fékk boltann í dauðafæri eftir frákastið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×