Enski boltinn

Króatar hafa áhyggjur af leikmönnum sínum í enska boltanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eduardo borinn af velli á St. Andrew tímabilið 2007-2008.
Eduardo borinn af velli á St. Andrew tímabilið 2007-2008. Nordic Photos / Getty
Forseti króatíska knattspyrnusambandsins, Vlatko Markovic, hefur áhyggjur af leikmönnum landsliðsins sem spila í ensku úrvalsdeildinni. Króatar stefna hátt á EM í Póllandi og Úkraínu í sumar og vonast til þess að þeirra sterkustu menn verði ómeiddir þegar til kastanna kemur.

„Leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni eru í meiri hættu en aðrir. Strax í grasrótinni læra menn að renna sér í tæklingar svo það er hluti af knattspyrnumenningunni á Englandi. Það stóreykur þá hættu sem fyrir er að leikmenn beinbrotni," sagði Markovic.

Króatar komust upp úr riðli sínum í síðustu lokakeppni Evrópmótsins árið 2008. Þeir féllu þó úr leik gegn Tyrkjum í 8-liða úrslitum. Þá söknuðu þeir framherjans Eduardo Da Silva sem brotnaði illa á ökkla í leik með Arsenal gegn Birmingham.

Króatar leika í riðli með Spánverjum, Ítölum og Írum. Ljóst er að þeir þurfa á öllum sínum stjörnum að halda ætli liðið sér stóra hluti í keppninni. Meðal leikmanna króatíska liðsisn sem leika á Englandi eru Luka Modric og Niko Kranjcar leikmenn Tottenham og Nikica Jelavic framherji Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×