Enski boltinn

Chelsea komið í undanúrslit enska bikarsins | Torres gerði tvö mörk

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea flaug sannfærandi áfram í undanúrslit ensku bikarkeppninnar þegar þeir unnu Leicester, 5-2, í 8-liða úrslitum keppninnar. Fernando Torres gerði tvö mörk í leiknum og lagði upp tvö önnur mörk sem verður að teljast frétt dagsins í knattspyrnuheiminum.

Chelsea var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og réðu ferðinni alveg frá fyrstu mínútu.

Gary Cahill kom heimamönnum yfir á 12. mínutu leiksins með fínu marki en leikmaðurinn fagnaði með því að lyfta upp bolnum og sýndi það viðeigandi skilaboð.

Á bolnum stóð „Pray 4 Muamba" eða biðjið fyrir Muamba. Fabrice Muamba, leikmaður Bolton, fékk hjartaáfall í miðjum leik gegn Tottenham í gær og er fótboltaheimurinn allur að hugsa til leikmannsins.

Salomon Kalou skoraði annað mark Chelsea nokkrum mínútum síðar og staðan því orðin 2-0. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleiknum og var staðan því óbreytt í hálfleik.

Stórmerkileg tíðindi gerðust eftir rúmlega tuttugu mínútna leik í síðari hálfleik þegar Fernando Torres, leikmaður Chelsea, skoraði þriðja mark liðsins. Torres hafði ekki skorað mark fyrir þá bláu í 150 daga eða frá 19. október 2011. Það liðu 1541 leikmínútur á milli marka hjá Torres, vonandi þurfa aðdáendur Chelsea ekki að bíða svo lengi eftir því næsta.

Þegar um korter var eftir af leiknum bitu leikmenn Leicester frá sér þegar Jermaine Beckford minnkaði muninn fyrir gestina.

Fernando Torres var síðan aftur á ferðinni fimm mínútum fyrir leikslok þegar hann skallaði boltann í netið. Aðeins liðu því 17 mínútur á milli þessara marka.

Rétt fyrir leikslok skoraði Ben Marshall frábært mark fyrir Leicester en Chelsea svaraði um hæl og Raul Meireles skoraði fimmta mark liðsins eftir magnaðan undirbúning frá Fernando Torres.

Leiknum lauk því með 5-2 sigri Chelsea. Flottur sigur hjá heimamönnum en það verður að segjast að varnarleikur liðsins er enn að stríða leikmönnum liðsins og Leicester hefði hæglega getað skorað fleiri mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×