Enski boltinn

Bale: Það er engin krísa hjá Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það hefur lítið gengið hjá Gareth Bale og félögum í Tottenham að undanförnu en velski landsliðsmaðurinn er viss um að þeir geti komist aftur á sigurbraut í dag þegar liðið mætir Bolton í átta liða úrslitum enska bikarsins.

Tottenham hefur tapað þremur deildarleikjum í röð á móti Arsenal, Manchester United og Everton sem þýðir að liðið er ekki lengur með í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Tottenaham er líka aðeins búið að vinna 2 af síðustu 8 leikjum sínum.

„Það er engin krísa hjá okkur, þetta er bara smá niðursveifla," sagði Gareth Bale í viðtali við Guardian.

„Við erum enn í þriðja sæti en ekki í þriðja neðsta sæti og stjórinn hefur fulla trú á okkur. Hann var ekki að taka okkur af lífi í klefanum eftir að við töpuðum fyrir Manchester United eða Everton. Hann vissi vel að við gátum alveg eins unnið þessa leiki og hlutirnir munu fara að falla með okkur á ný," sagði Bale.

„Það hefur verið látið mikið með þessa síðustu leiki hjá okkur og fólk hefur því verið að gera mikið úr töpunum okkar. Það þarf ekki mikið til að snúa þessu við, bara smá heppni. Við erum með ungt lið sem er enn að þroskast," sagði Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×