Enski boltinn

Rodgers um Gylfa: Okkur vantaði markaskorara af miðjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brendan Rodgers, stjóri Swansea, var að sjálfsögðu ánægður með Gylfa Þór Sigurðsson sem skoraði tvö fyrstu mörk liðsins í 3-0 útisigri á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gylgfi hefur nú skorað 5 mörk í 9 leikjum í ensku úrvalsdeildinni þar af fjögur mörk í síðustu þremur leikjum liðsins. Swansea komst upp í áttunda sætið með þessum sigri.

„Þegar ég lagði mat á liðið eftir fyrstu fimm mánuðina í ensku úrvalsdeildinni þá fannst mér að okkur vantaði markaskorara af miðjunni. Gylfi hefur smollið fullkomlega inn í liðið og er frábær strákur," sagði Brendan Rodgers um íslenska landsliðsmanninn.

„Við elskum allir fótbolta, allir leikmennirnir leggja mikið á sig á hverjum degi og að mínu mati er Gylfi leikmaður sem hefur mikla hæfileika," sagði Rodgers.

„Leikkerfið og leikstíllinn okkar hentar honum. Auðvitað fór hann til Hoffenheim og það gekk ekki upp en það er alltaf þannig að leikmenn kunna mismunandi vel við sig eftir því í hvernig umhverfi þeir eru í. Hann hefur aðlagast öllu vel hjá okkur," sagði Rodgers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×