Enski boltinn

Lescott: Getur reynst dýrmætt að fá Tevez aftur í liðið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tevez á æfingu með City á dögunum.
Tevez á æfingu með City á dögunum. Mynd. / Getty Images
Joleon Lescott, leikmaður Manchester City, vill meina að endurkoma Carlos Tevez inn í liðið jafngildi að kaupa heimsklassaleikmann á þessum tímapunkti.

Tevez hefur að undanförnu æft að krafti og ætlar greinilega að komast í gott form áður en hann stígur á grasið.

Á tímabili leit út fyrir að Tevez myndi aldrei aftur leika fyrir Manchester City en til að byrja með hófust vandræði leikmannsins þegar hann neitaði að hita upp í leik í Meistaradeild Evrópu seint á síðasta ári.

Roberto Mancini lét hafa eftir sér í fjölmiðlum eftir atvikið að leikmaðurinn myndi aldrei spila fyrir City á meðan hann væri við völd. Nú virðist stjórinn hafa skipt um skoðun og Tevez er byrjaður að æfa á fullu með liðinu.

Afsökunarbeiðni frá Tevez mun hafa komið leikmanninum aftur inn í myndina og líkur eru á því að framherjinn verði í leikmannahóp Manchester City á miðvikudaginn þegar félagið leikur gegn Chelsea.

„Að fá Tevez aftur í hópinn er eins og að semja við nýjan heimsklassa leikmann," sagði Joleon Lescott við Sky Sports sjónvarpsstöðina.

„Hann er heill heilsu og mun ekki verða lengi að koma sér í leikæfingu. Allir leikmennirnir eru virkileag spenntir og geta í raun ekki beðið eftir að sjá hann aftur á vellinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×