Enski boltinn

Rodgers ætlar að reyna að halda Gylfa hjá Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson hefur slegið í gegn hjá velska liðinu Swansea City en hann er á láni frá þýska liðinu Hoffenheim fram á vor. Gylfi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Swansea á Fulham í gær en sigurinn skilaði liðinu upp í áttunda sæti deildarinnar.

Brendan Rodgers, stjóri Swansea, talaði um það eftir leikinn að hann ætlaði að reyna að gera allt til þess að halda Gylfa hjá félaginu.

„Ég er búinn að tala við umboðsmanninn hans og hef gert stjórnarformanninum grein fyrir minni afstöðu. Þetta ræðst samt á því hvort Hoffenheim sé yfir höfuð tilbúið að selja hann," sagði Brendan Rodgers.

Gylfi er búinn að skora fimm mörk á þeim 687 mínútum sem hann er búinn að spila í ensku úrvalsdeildinni sem þýðir mark á 137 mínútna fresti. Gylfi hefur alls komið með beinum hætti að átta mörkum í níu leikjum sínum með Swansea og liðið hefur náð í sextán stig út úr þeim.

Það er þegar farið að orða Gylfa við stórlið í Evrópu og frábær frammistaða hans um helgina ýtti örugglega enn meir undir áhugann á íslenska landsliðsmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×