Enski boltinn

Torres búinn að spila í sólarhring án þess að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fernando Torres tókst ekki að skora í fyrsta leiknum undir stjórn Ítalans Roberto Di Matteo þrátt fyrir að fá að spila allar 90 mínúturnar í 2-0 bikarsigri á Birmingham. Það er því liðinn meira en sólarhringur síðan að hann skoraði síðast fyrir Chelsea eða spænska landsliðið.

Fernando Torres hefur aðeins skorað 4 mörk í 32 leikjum með Chelsea á tímabilinu en síðustu tvö mörk hans komu í 5-0 stórsigri á belgíska liðinu Genk í Meistaradeildarleik 19. október síðastliðinn. Frá þeim tíma hefur Torres spilað 26 leiki í röð með Chelsea og spænska landsliðinu án þess að skora.

Torres hefur aðeins skorað 5 mörk í 50 leikjum fyrir Chelsea frá því að félagið keypti hann á 50 milljónir punda frá Liverpool fyrir rúmu ári. Þetta gerir 10 milljónir punda eða 1982 milljónir íslenskra króna á hvert mark.

Hér fyrir neðan má sjá sundurliðun á leikjum Fernando Torres frá 19. október. Það vakti reyndar athygli í gær að hann fékk ekki að taka víti sem hann fiskaði í gær í stöðunni 2-0 fyrir Chelsea. Landi hans Juan Manuel Mata tók vítið og lét verja frá sér.



Tölfræði Fernando Torres frá 19. október

Enska úrvalsdeildin - 16 leikir, 857 mínútur, 0 mörk

Enska bikarkeppnin - 4 leikir, 312 mínútur, 0 mörk

Enski deildarbikarinn - 1 leikur, 90 mínútur, 0 mörk

Meistaradeildin - 3 leikir, 167 mínútur, 0 mörk

Spænska landsliðið - 3 leikir, 83 mínútur, 0 mörk

Samtals: 26+ leikir, 1509 mínútur, 0 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×