Enski boltinn

Menn að fá sér í enska boltanum

Pennant á eftir að verða ansi kalt þegar hann verður sendur í frystirinn hjá Tony Pulis.
Pennant á eftir að verða ansi kalt þegar hann verður sendur í frystirinn hjá Tony Pulis.
Þorstinn virðist sækja fast að leikmönnum enska boltans en tveir leikmenn úr úrvalsdeildinni - Jermaine Pennant og Roger Johnson - hafa verið sektaðir fyrir að fá sér á meðan áfengisbann var í gildi hjá félögum þeirra.

Pennant, sem leikur með Stoke, var á fylleríi til 5 um morguninn á leikdegi. Atvikið átti sér stað fyrir útileik gegn Everton en þá laumaði hann sér af hóteli liðsins og á næturklúbb þar sem hann tók hraustlega á því.

Upp komst um athæfið og Pennant var eðlilega hent út úr leikmannahópnum. Pennant er búinn að brjóta agareglur Stoke tvisvar í vetur en hann gerði það einnig fyrir leikinn gegn Crawley í bikarnum um daginn.

Pennant var sektaður og hann er nú í sama frysti og stjórinn, Tony Pulis, setti Eið Smára í er hann var hjá Stoke.

Johnson, sem er fyrirliði Wolves, hefur aftur á móti verið sektaður um 50 þúsund pund fyrir að mæta fullur á æfingu.

Wolves tapaði fyrir Fulham, 5-0, á sunnudag og Johnson drekkti sorgum sínum alla nóttina og var í engu standi er hann mætti á æfingu um morguninn.

Johnson hefur beðið liðsfélaga sína og aðra hjá félaginu innilega afsökunar á fylleríinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×