Fótbolti

Avram Grant: Enska landsliðið fær ekki betri mann en Redknapp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Avram Grant og Harry Redknapp.
Avram Grant og Harry Redknapp. Mynd/Nordic Photos/Getty
Avram Grant, fyrrum stjóri Chelsea, West Ham og Portsmouth, hefur bæst í hóp þeirra sem segja að Harry Redknapp eigi að taka við enska landsliðinu fyrir Evrópumótið í sumar. Enska landsliðið er enn án þjálfara eftir að Fabio Capello hætti með liðið á dögunum.

„Hann yrði besti þjálfarinn fyrir enska landsliðið enda þekki ég vel hvernig hann vinnur bæði innan og utan vallar. Hann er líka frábær náungi," sagði Avram Grant við BBC.

„Ég er ekki að segja að þjálfarinn þurfi endilega að verða enskur en ég tel samt að Englendingur hafi vissulega forskot. Enskur þjálfari þekkir miklu betri enska hugarfarið og ensku leikmennina," sagði Grant.

„Harry er hrifinn af flottum fótbolta og hann er hrifinn af teknískum fótboltamönnum. Hann vill að sín lið spili jákvæðan fótbolta. Hann er frábær þjálfari og frábær manneskja. Enska landsliðið fær ekki betri mann en Redknapp þó að þeir leiti og leiti," sagði Grant og bætti við:

„Þeir þurfa að láta hann fá starfið eða þvinga hann í að taka það að sér því að það væri það besta fyrir alla," sagði Grant.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×