Sport

Caroline Wozniacki sár út í Navratilovu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caroline Wozniacki.
Caroline Wozniacki. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki hefur fengið sig fullsadda af gagnrýni tennisspekinga sem margir vilja meina að hún hafi ekki átt skilið að vera í efsta sæti heimslistans. Wozniacki hefur ekki enn unnið risamót og er nú ekki lengur í efsta sæti heimslistans eftir slæmt gengi á opna ástralska mótinu á dögunum.

Það var einkum tennisgoðsögnin Martina Navratilova særði þá dönsku. Navratilova talaði um það að allir væri á því að Caroline Wozniacki væri ekki besta tenniskona í heimi þótt að hún sæti í efsta sæti heimslistans.

„Ég myndi aldrei segja það að Martina hafi verið númer eitt í heiminum af því að það hafi ekki verið nein samkeppni eða af því að engin önnur væri að spila. Það hefði verið dónalegt," sagði Caroline Wozniacki. Martina Navratilova er orðin 55 ára gömul en hún vann 18 risamót á árunum 1978 til 1990 og er að margra mati besta tenniskona sögunnar.

„Martina var ótrúlegur spilari. Hún vann fullt af risamótum og spilaði frábærlega. Martina Hingis var líka frábær og hún var minn uppáhaldsspilari," sagði Wozniacki og það eru fleiri sem frá að heyra það.

„Ef ég segi alveg eins og er þá hef ég misst virðingu fyrir þessu fólki sem er alltaf að gera lítið úr mínum afrekum. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir því sem aðrir hafa afrekað á tennisvellinum því ég veit af eigin raun hversu erfitt það er að komast á toppinn í tennisnum," sagði Wozniacki sem er stödd í Dúbæ þar sem hún tekur þátt í tennismóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×