Enski boltinn

Maradona: Terry-málið bara afsökun til að losna við Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Diego Maradona segir að enska knattspyrnusambandið hafi notað málefni John Terry eingöngu í þeim tilgangi að losna við Fabio Capello úr starfi landsliðsþjálfara.

Maradona er nú þjálfari Al-Wasl í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en var áður landsliðsþjálfari Argentínu. Hann hélt því fram í gær að enska sambandið hafi reynt að reka Capello í langan tíma.

John Terry hefur verið sakaður um að vera með kynþáttaníð í garð Anton Ferdinand, leikmann QPR, og af þeim ástæðum ákvað stjórn enska sambandsins að Terry myndi ekki vera landsliðsfyrirliði þar til að niðurstaða fæst í málið.

Við það var Capello ósáttur og sagði starfi sínu lausu í vikunni á fundi með formanni enska knattspyrnusambandsins, David Bernstein.0

„Þetta var það sem enska sambandið sagði en það var ekki raunverulega ástæðan. Það er ljóst að þeir vildu reka hann og þurftu afsökun til þess," sagði Maradona.

„Þeir voru ekki ánægður með hans frammistöðu. Hann náði ekki tilsettum árangri á HM í Suður-Afríku og því vildu þeir skipta honum út," bætti hann við.

Sjálfur var Maradona rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Argentínu eftir að liðið féll úr leik í fjórðungsúrslitum HM.

„Þeir hjá enska knattspyrnusambandinu geta sagt það sem þeir vilja en þeir blekkja mig ekki," sagði Maradona og bætti því við að hann hefur engan áhuga á því að taka við starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×