Enski boltinn

Giggs búinn að skrifa undir | Spilar sitt 23. tímabil með United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/AFP
Ryan Giggs er búinn að skrifa undir nýjan eins árs samning við Manchester United sem þýðir að velski miðjumaðurinn mun spila sitt 23. tímabil með United 2012-2013.

Ryan Giggs er orðinn 38 ára gamall og er eini leikmaðurinn sem hefur skorað á öllum tímabilum síðan að enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar haustið 1992. Giggs lék sitt fyrsta leik með United í mars 1991 en hann hefur aldrei spilað fyrir annað félag á ferlinum. Hann er í dag leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi og hefur þegar bætt met Bobby Charlton um 140 leiki.

„Ryan er undraverður leikmaður. Að mörgu leiti er hann sameiningartákn fyrir öll liðin mín hjá United. Hann hefur enduruppgötvað sig sem leikmann hvað eftir annað, aðlagast að breyttum leik og alltaf haldið ástríðunni og hungri í árangur," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.

Ryan Giggs hefur unnið 25 titla með Manchester United þar á meðal Meistaradeildina tvisvar sinnum, ensku deildina tólf sinnum og enska bikarinn fjórum sinnum. Hann hefur alls spiað 898 leiki fyrir Manchester United.

„Þegar ég skrifaði undir minn fyrsta samning hjá United þá bjóst ég aldrei að spila fyrir félagið í 22 ár. Mér líður vel og ég veit að ég get enn skilað einhverju til liðsins og hjálpað félaginu að vinna titla. Það var frábært að vinna 19. meistaratitilinn en hjá þessu félagi skiptir alltaf mestu máli hvað við gerum næst," sagði Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×