Enski boltinn

Var Dalglish að mæla með Sir Alex í stöðu landsliðsþjálfara Englands?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson og Kenny Dalglish.
Sir Alex Ferguson og Kenny Dalglish. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hvort sem það var í meira gríni en alvöru þá ýjaði Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, að því að enska knattspyrnusambandið ætti að ráða Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sem landsliðsþjálfara Englands fram yfir EM í sumar.

Kenny og Sir Alex eru báðir Skotar og örugglega ekki ofarlega á blaði þrátt fyrir flottan árangur í enska boltanum. Ummæli Dalglish vöktu samt athygli en enska sambandið á eftir að ráða eftirmann Fabio Capello.

„Ef verið er að leita að þjálfara fyrir enska landsliðið þá ættu menn að ráða þann mann sem hefur náð bestum árangri frá stofnun úrvalsdeildarinnar og jafnfram þá þann mann sem hefur gengið best að ná árangri með enskum og breskum leikmönnum," sagði Kenny Dalglish á blaðamannafundi í dag en sá maður er óumdeilanlega Sir Alex Ferguson sem hefur gert Manchester United tólf sinnum að Englandsmeisturum.

Kenny Dalglish var þó alveg tilbúinn að viðurkenna það að Harry Redknapp væri góður kostur fyrir enska landsliðið á þessum tímapunkti. „Harry yrði samt frábær fyrir enska landsliðið," sagði Kenny Dalglish.

Liverpool heimsækir Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×