Fótbolti

Redknapp til í að stýra landsliðinu bara á EM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp.
Harry Redknapp. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur tekið vel í þá hugmynd að stýra bara enska landsliðinu fram yfir EM í sumar en halda svo áfram sem stjóri Tottenham. Hann hefur sagt að það sé ekki möguleiki fyrir sig að vera í báðum störfum í einu.

Það eru nánast allir á því í Englandi að Harry Redknapp sé rétti maðurinn til að taka við af Fabio Capello sem hætti með enska landsliðið á dögunum aðeins fjórum mánuðum fyrir fyrsta leik á EM.

„Tímabundið? Ég get alveg hugsað mér að stýra liðinu bara á EM í sumar," svaraði Harry Redknapp þegar blaðamenn spurði hann út í fyrrnefndan möguleika.

„Það er hinsvegar ekki möguleiki að þjálfa bæði félagslið og landslið til langs tíma. Það er nógu erfitt að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni án þess að þurfa að bæta við áhyggjum af enska landsliðinu," sagði hinn 64 ára gamli Harry Redknapp.

„Sem landsliðsþjálfari þá viltu fylgjast með sem flestum leikmönnum spila sem og að skoða andstæðingana. Ég tel að ég þurfi að velja á milli ef mér verður boðið starfið. Það er ómögulegt að sinna báðum þessum störfum í einu," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×