Fótbolti

Matthías fékk bestu meðmæli frá Ólafi Erni

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.
Ólafur Örn Bjarnason, fyrrum leikmaður Brann í Noregi, gaf Matthíasi Vilhjálmssyni bestu meðmæli þegar Mons Ivar Mjelde þjálfari Start var að svipast um framherja á Íslandi. Fyriliði FH mun leika sem lánsmaður hjá Start á næsta keppnistímabili en liðið er í næst efstu deild í Noregi.

„Það er mjög spennandi að fá íslenskan landsliðsmann og ég ræddi við Ólaf Örn sem gaf honum bestu meðmæli," sagði Mjelde við staðarblað Fæderlandsvennen í Kristiansand. „Matti Vill er líkamlega sterkur, góður í klára færin sín og sterkur karakter sem hefur verið fyrirliði hjá sínu liði á Íslandi."

Matthías hefur tvívegis áður reynt fyrir sér hjá Start. Hann átti að leika æfingaleik með félaginu í október á síðasta ári en þeim leik var síðan frestað. Matthías var árið 2009 til reynslu hjá Start en gat lítið æft með liðinu vegna veikinda. „Ég hef aldrei verið eins veikur á ævinni," segir Matthías í viðtali við staðarblaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×