Enski boltinn

Eigandi Úlfanna mætti í búningsklefann og lét leikmenn heyra það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson í baráttunni við Dirk Kuyt í leiknum.
Eggert Gunnþór Jónsson í baráttunni við Dirk Kuyt í leiknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steve Morgan, eigandi Wolves, var allt annað en sáttur eftir 3-0 tap á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þriðjudagskvöldið. Hann rauk niður í búningsklefa í leikslok til þess að lesa yfir leikmönnum liðsins sem létu Liverpool fara illa með sig á heimavelli.

Eggert Gunnþór Jónsson átti allt annað en góðan leik og var tekinn útaf strax eftir annað markið. Wolves lék þarna ellefa leikinn í röð án þess að vinna og er áfram í næstneðsta sæti deildarinnar enda bara búið að ná í 11 stig út úr síðustu 20 leikjum.

Steve Morgan á það til að koma inn í klefann fyrir leiki og hvetja sína leikmenn áfram en hann hefur afar sjaldan mætt niður í klefa eftir leik. Morgan var bara svo misboðið eftir þessa frammistöðu liðsins að hann mætti öskureiður í búningsklefann og lét leikmennina heyra það.

Mick McCarthy, stjóri Wolves, var í klefanum þegar Morgan mætti á svæðið og það hefur örugglega verið vandræðalegt að horfa upp á eigandann öskra á sína leikmenn í reiðiskasti.

Framundan eru tveir gríðarlega mikilvægir leikir, fyrst fer Wolves á Loftus Road til að spila við Queens Park Rangers á laugardaginn og svo tekur liðið á móti West Bromwich Albion í næsta leik á eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×