Enski boltinn

Nelsen til Tottenham: Redknapp vildi fá reynslubolta í vörnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Nelsen.
Ryan Nelsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ryan Nelsen, fyrirliði landsliðs Nýja-Sjálands, er kominn til Tottenham og er enn einn gamli refurinn sem Harry Redknapp, stjóri Tottenham, veðjar á. Redknapp hefur lífgað við ferill mjög margra leikmanna undanfarin ár og Nelsen er líklegur til að bætast í þann hóp.

Nelsen er orðinn 34 ára gamall en hann var í sjö ár hjá Blackburn Rovers þar sem hann spilaði lykilhlutverki í miðri vörninni.

„Þetta er mjög spennandi tækifæri á þessum tímapunkti á mínum ferli. Ég elskaði tíma minn hjá Blackburn en þetta var eitthvað sem var of gott til að hafna," sagði Ryan Nelsen við Christchurch Press.

Nelsen sagði ennfremur að Harry Redknapp hafi boðið honum sex mánaða samning með möguleika á einu ári til viðbótar og að stjórinn hafi viljað fá reynslubolta í vörnina hjá Tottenham-liðinu.

Ryan Nelsen hefur verið að glíma við hnémeiðsli á þessu tímabili og það á enn eftir að ganga frá einhverjum pappírum áður en hann getur mætt á White Hart Lane. Nelsen er hinsvegar búinn að gera starfslokasamning við Blackburn Rovers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×