Enski boltinn

Miyaichi: Wilshere sagði að ég yrði betri leikmaður ef ég færi til Bolton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryo Miyaichi.
Ryo Miyaichi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Japanski framherjinn Ryo Miyaichi mun klára tímabilið með Bolton Wanderers en Owen Coyle, stjóri Bolton, fékk hann á láni frá Arsenal á lokadegi félagsskiptagluggans. Miyaichi hefur aðeins fengið að spila tvo leiki með Arsenal á tímabilinu og þeir voru báðir í deildabikarnum.

Ryo Miyaichi er 19 ára gamall og hefur verið hjá Arsenal frá janúar 2011. Hann var lánaður til hollenska liðsins Feyenoord á síðustu leiktíð þar sem að hann skoraði 3 mörk og gaf 5 stoðsendingar í 12 leikjum.

„Arsene Wenger óskaði mér góðs gengis og sagði mér að njóta þess að fá að spila fótbolta. Jack Wilshere sagði líka við mig að ég yrði betri leikmaður ef ég færi til Bolton," sagði Ryo Miyaichi en Wilshere sló í gegn á sínum tíma eftir að hafa farið á lán til Bolton Wanderers.

„Ég sá hvað Jack gerði hérna fyrir tveimur árum og auðvitað vil ég leika það eftir og spila vel fyrir Bolton. Minn leikstíll er að hlaupa með boltann og ég er því mjög spenntur að koma hingað," sagði Miyaichi.

„Hann er mjög hæfileikaríkur ungur leikmaður sem er mjög fljótur og spennandi. Hann stóð sig mjög vel hjá Feyenoord á síðasta tímabili," sagði Owen Coyle, stjóri Bolton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×