Enski boltinn

Ótrúlegt jafntefli á Stamford Bridge | sex marka leikur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea og Manchester United gerði ótrúlegt 3-3 jafntefli á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í dag en Chelsea komst þremur mörkum yfir. Lærisveinar Alex Ferguson gefast aftur á móti aldrei upp og náðu að jafna metin 3-3.

Chelsea skoraði fyrsta mark leiksins á 36.mín þegar Daniel Sturridge fór framhjá Patrice Evre eins og að drekka vatn, ætlaði að senda boltann fyrir teiginn en þaðan fór hann í Jonny Evens, leikmann Manchester United, og í netið. Virkilega klaufalegt sjálfsmark og Chelsea komið yfir.

Staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik. Það tók aftur á móti Chelsea ekki nema 24 sekúndur að skora annað mark í upphafi síðari hálfleiksins en þá hamraði Juan Mata boltanum í netið eftir fína fyrirgjöf frá Fernando Torres.

Fimm mínútum síðar komst Chelsea í 3-0 þegar David Luiz skallaði boltann í netið. Ótrúlegar upphafsmínútur í síðari hálfleiknum og heimamenn nánast búnir að klára leikinn. Nokkrum mínútum síðar krækti Patrice Evra í vítaspyrnu fyrir Manchester United þegar Daniel Sturridge braut klaufalega á honum innan vítateigs.

Wayne Rooney fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Rúmlega tuttugu mínútum fyrir leikslok fékk Manchester United aðra vítaspyrnu þegar Branislav Ivanovic braut á Danny Welbeck innan vítateigs. Rooney fór aftur á punktinn og minnkaði muninn í eitt mark 3-2.



Á 83. mínútu gerðist síðan það ótrúlega að Manchester United náði að jafna metin. Javier Hernández skallaði þá boltann í netið eftir frábæra sendingu frá Ryan Giggs. Spennandi mínútur framundan og allt að verða brjálað á Stamford Bridge.

Leiknum lauk með 3-3 jafntefli í einum af leikjum tímabilsins. Manchester United eru því 2 stigum á eftir Manchester City eftir leiki helgarinnar. Chelsea er í fjórða sætinu með 43 stig.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×