Enski boltinn

Stjóri Swansea: Gylfi er mjög klár strákur sem elskar enska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brendan Rodgers, stjóri Swansea, var að sjálfsögðu himinlifandi með frammistöðu Gylfa Þórs Sigurðssonar í 2-1 sigri liðsins á West Brom í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gylfi skoraði fyrra markið, lagði upp það síðara og átti frábæran leik.

„Ég setti hann í liðið hjá mér þegar ég var hjá Reading þannig að ég veit allt um hnan. Mér fannst við þurfa sóknarmiðjumann fyrir seinni hluta tímabilsins og hann passaði fullkomlega," sagði Brendan Rodgers.

„Ég þurfti ekkert að sannfæra hann um að koma hingað. Hann veit hvernig ég vinn og ég sá hæfileikana hjá honum þegar hann var ungur leikmaður hjá Reading. Ég henti honum þá inn í liðið og hann endaði á því að skora 20 mörk á tímabilinu," sagði Rodgers.

„Ég hef alltaf haldið sambandi við Gylfa og ég var viss um að þetta væri fullkomið lið fyrir hann. Hann hefur líka smellpassað inn í liðið okkar," sagði Rodgers.

„Það var erfitt fyrir hann hjá Hoffenheim því hann var búinn að hafa þrjá mismunandi þjálfara. Þetta er mjög klár strákur sem elskar enska boltann og þekkir vel hvernig ég vinn," sagði Rodgers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×