Enski boltinn

Eigandi Hoffenheim: Af hverju er Gylfi í Englandi?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi fagnar marki sínu gegn West Brom um helgina.
Gylfi fagnar marki sínu gegn West Brom um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Dietmar Hopp, eigandi þýska úrvalsdeildarfélagsins Hoffenheim, segist ekki skilja af hverju Gylfi Þór Sigurðsson var lánaður til enska úrvalsdeildarfélagsins Swansea.

Gylfi fékk lítið að spila í Þýskalandi í haust eftir að hafa misst af fyrstu vikunum vegna meiðsla. Holger Stanislawski, þjálfari liðsins, vildi greinilega lítið nota hann og á endanum ákvað Gylfi að grípa tækifærið og halda til Englands þegar honum stóð það til boða.

Stanislawski hefur gagnrýnt Gylfa og segir hann ekki hafa vilja eða áhuga til að spila fyrir Hoffenheim. Hann setti einnig Chinedu Obasi í sama flokk en hann var lánaður til Schalke í síðasta mánuði. Þá var Vedad Ibisevic seldur til Stuttgart um svipað leyti.

En Hopp segir að það hafi ekki komið honum á óvart að Obasi og Ibisevic fóru annað. „Það lá í loftinu strax í sumar og var brugðist við því," sagði Hopp en skildi ekki hvað Gylfi væri að gera í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann væri meðal bestu leikmanna síns liðs.

Gylfi átti frábæran leik með Swansea um helgina þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað í 2-1 sigri á West Brom.

Hoffenheim mætir B-deildarliðinu Greuter Fürth í fjórðungsúrslitum þýsku bikarkeppninnar á morgun og er talið líklegt að Stanislawski gæti misst starfið ef Hoffenheim tapar þeim leik. Liðið er í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar og aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×