Enski boltinn

Villas-Boas búinn að gefast upp á Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, segir útilokað að brasilíski framherjinn Neymar sé á leið til félagsins.

Neymar hefur lengi verið orðaður við Chelsea en spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid eru einnig á höttunum eftir kappanum. Neymar er samningsbundinn Santos í Brasilíu til 2014 en engu að síður eru sögusagnir um að hann komi til Evrópu nú í sumar.

„Hann er búinn að ákveða sína framtíð og veit enginn hvar hann mun enda. Því miður kemur hann ekki til okkar," sagði Villas-Boas við spænska fjölmiðla. „Ég held að Neymar-málinu sé lokið af okkar hálfu."

Villas-Boas hefur nóg að hugsa um þessa dagana eftir 3-3 jafntefli sinna manna gegn Manchester United um helgina. Chelsea komst í 3-0 forystu í leiknum og er talið að eigandinn Roman Abramovich sé orðinn þreyttur á misjöfnu gengi liðsins á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×