Innlent

Amnesty minnir á ófremdarástandið í Aserbaídjan

Kristalshöllin er glæsilegt mannvirki en byggingin hefur verið harðlega gagnrýnd.
Kristalshöllin er glæsilegt mannvirki en byggingin hefur verið harðlega gagnrýnd.
Íslandsdeild Amnesty International vekur athygli á skýrslu um ástand mannréttinda í Aserbaídsjan, sem kom út í lok 2011. Landið, sem heldur Eurovision keppnina þetta árið hefur mikið verið í umræðunni í dag sökum þess að Páll Óskar Hjálmtýsson hvetur Íslendinga til þess að sniðganga keppnina í ljósi frétta af mannréttindabrotum gegn íbúum í höfuðborginni Bakú sem hafa verið flæmdir brott af heimilum sínum til þess að hægt sé að byggja Kristalshöllina sem á að hýsa keppnina.

„Skýrslan fjallar um árásir stjórnvalda á mótmælendur, frá því að mótmæli brutust út í landinu í mars 2011," segir í tilkynningu frá Amnesty. „Skýrslan ber heitið Vorið sem aldrei varð: árásir gegn frelsi í Aserbaídsjan, ( The spring that never blossomed: Freedoms suppressed in Azerbaijan) lýsir öldu hótana og fangelsana stjórnvalda í kjölfar mótmæla gegn spillingu og aukinni kúgun gegn óháðum fréttamiðlum, frjálsum félagasamtökum og stjórnarandstöðuflokkum."

Erlendir fjölmiðlar bannaðir

Ennfremur segir að ungt baráttufólk og stjórnarandstæðingar hafi verið sett í fangelsi að geðþótta yfirvalda, eða í kjölfar upploginna ásakana, en blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum hafa sætt hótunum og áreitni. „Amnesty International telur 17 manns, sem handteknir voru í kringum mótmælin, vera samviskufanga og krefst þess að þeir verði tafarlaust leystir úr haldi."

„Amnesty International hvetur Evrópusambandið og alla aðra, sem eiga í alþjóðlegri samvinnu við Aserbaídsjan, að þrýsta á um að samviskufangar í landinu verði leystir úr haldi og stjórnvöld hætti að berja niður friðsamleg mótmæli, gagnrýni og stjórnarandstöðu í landinu," segir einnig í tilkynningunni.

„Hundruð mótmælenda gengu um götur höfuðborgarinnar, Baku, í mars og apríl 2011 og krafðist lýðræðislegra umbóta og aukinnar virðingar við mannréttindi. Stjórnarandstæðingar og baráttufólk tók mið af fjöldamótmælunum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og notaði miðla á netinu til að skipuleggja sig og miðla upplýsingum. Yfirvöld í Aserbaídsjan svöruðu með því að banna mótmæli og áreita og handtaka bloggara og baráttufólk," segir ennfremur og því bætt við að í kjölfarið hafi 14 baráttumenn og stjórnarandstæðinga verið dæmdir í allt að þriggja ára fangelsi fyrir að „skipuleggja og taka þátt í brotum gegn almannareglu".

„Amnesty International telur að engar sannanir séu fyrir því að þessir einstaklingar hafi gert annað en að nýta sér tjáningar- og fundafrelsi sitt þegar þeir skipulögðu friðsamleg mótmæli í miðborg Baku. Stjórnvöld halda áfram að nota dómskerfið til að þagga niður í gagnrýni fjölmiðla, og erlendir fjölmiðlar hafa ekki verið leyfðir í landinu frá 2009," segir einnig en tilkynningu Amnesty má sjá hér í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×