Enski boltinn

Rodgers hjá Swansea til 2015

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brendan Rodgers, stjóri Swansea.
Brendan Rodgers, stjóri Swansea. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Swansea til loka tímabilsins 2015.

Rodgers var áður á svokölluðum rúllandi samningi sem gilti í eitt ár í senn. Hann kom liðinu upp í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hefur náð góðum árangri í ár.

„Það er ánægjulegt fyrir mig að fá þennan nýja samning en ég hef verið mjög ánægður hér síðustu nítján mánuðina," sagði Rodgers. „Ég mun halda áfram að berjast næstu árin og gera mitt besta til að festa Swansea í sessi í ensku úrvalsdeildinni."

Swansea er nú í tíunda sæti deildarinnar, tíu stigum frá fallsæti þegar fjórtán leikir eru eftir af tímabilinu. Rodgers þykir hafa náð einstaklega miklu úr liði sínu þrátt fyrir takmarkaða fjármuni. Ekki síst hefur liðið þótt spila skemmtilegan sóknarbolta.

Gylfi Þór Sigurðsson er á mála hjá Swansea og skoraði eitt og lagði upp annað í 2-1 sigri þess á West Brom nú um helgina. Rodgers var áður á mála hjá Reading og þjálfaði þar til að mynda Gylfa Þór áður en hann var seldur til Hoffenheim í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×