Enski boltinn

Smalling og Jones klárir fyrir Arsenal-leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson segir að leikur Manchester United gegn Arsenal á sunnudaginn verði upphafið á „magnaðri" leikjahrinu. Varnarmennirnir Chris Smalling og Phil Jones eru klárir í slaginn eftir meiðsli.

„Við eigum svo tvo leiki við Liverpool og spilum líka við Tottenham, Chelsea og Arsenal," sagði Ferguson á blaðamannafundi í dag.

„Þetta verður ótrúleg leikjahrina. Vonandi komum við vel úr henni og gæti haft mikið að segja um tímabilið allt," bætti hann við. „Það er alltaf erfitt að spila gegn Arsenal. Þetta ætti að verða góður leikur."

Síðast þegar að liðin mættust þá vann United eftirminnilegan 8-2 sigur á Old Trafford. „Mér finnst að þeir hafa jafnað sig vel á því. Þeir hafa náð góðum úrslitum í deildinni og eru komnir áfram í Meistaradeildinni. Það amar ekki mikið að á þeim bænum."

Smalling og Jones hafa verið frá vegna meiðsla og misstu af leik United gegn Bolton um síðustu helgi. „Phil og Chris verða leikfærir," sagði Ferguson.

Þeir Ashley Young og Tom Cleverly eru þó enn frá vegna meiðsla en Ferguson er vongóður um að fá þá til baka fljótlega. „Ég bind vonir við að Tom verði byrjaður að spila fótbolta á æfingavellinum eftir um tíu daga. Þá verður hægt að ákveða framhaldið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×