Enski boltinn

Stjóri Swansea: Gylfi smellpassar í liðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór eltir Aaron Ramsey í sigurleik Swansea á Arsenal fyrir viku þegar Hafnfirðingurinn lagði upp sigurmarkið.
Gylfi Þór eltir Aaron Ramsey í sigurleik Swansea á Arsenal fyrir viku þegar Hafnfirðingurinn lagði upp sigurmarkið. Nordic Photos / Getty Images
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, er hæstánægður með frammistöðu Hafnfirðingsins Gylfa Þórs Sigurðssonar. Gylfi Þór var í fyrsta sinn í byrjunarliði Swansea þegar liðið tapaði 2-0 gegn Sunderland og stóð að margra mati upp úr í liði sínu.

„Gylfi hefur verið stórkostlegur. Ég þekki vel til hans. Hann er að fóta sig og að vinna í hraðanum," sagði Rodgers um Íslendinginn unga við breska fjölmiðlamenn að leik loknum.

„Hann hafði ekki spilað marga leiki áður en hann kom hingað. En gæði hans er auðsjánleg. Hann smellpassar í liðið," sagði Rodgers um Gylfa og liðsfélagar hans voru einnig ánægðir með frammistöðu hans.

„Mér fannst Gylfi okkar besti leikmaður og hann leit vel út í sínum fyrsta byrjunarliðsleik," sagði miðvörðurinn Ashley Williams.

Gylfi verður á láni hjá Swansea frá þýska liðinu Hoffenheim út leiktíðina. Hann hefur nú þegar vakið athygli fyrir frábærar sendingar sínar og skotvissu. Honum tókst þó ekki frekar en öðrum leikmönnum Swansea að koma boltanum í netið sem hefur verið vandamál hjá Svönunum á útivelli á leiktíðinni.

„Við vorum mikið með boltann en það vantaði töfrana að breyta hálffæri í dauðafæri og skora," sagði Gylfi Þór við breska blaðamenn eftir leikinn.

Gylfi var hógvær þegar hann var spurður út í hvernig hann hefði farið að því að aðlagast leik Swansea svo fljótt.

„Það er auðvelt þegar maður hefur leikmenn á borð við Joe Allen og Leon Britton fyrir aftan sig. Þeir hafa gott auga fyrir sendingum. Með Sinclair og Dyer á kantinum er líka auðvelt að finna góða sendingarmöguleika. Það er auðveldara að ganga til liðs við lið og aðlgast fljótt með svo góða leikmenn þér við hlið," sagði Gylfi Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×