Enski boltinn

Balotelli fer fyrir aganefndina eftir traðkið á Parker

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli, framherji Manchester City, er líklega á leiðinni í leikbann á næstunni eftir að aganefnd enska knattspyrnusambandsins ákvað að kæra hann fyrir atvik í 3-2 sigri City á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Balotelli skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur en hann hafði aldrei átt að vera inn á vellinum.

Balotelli steig ofan á Scott Parker á 84. mínútu leiksins en hann var þá með gult spjald á bakinu. Howard Webb sá þetta ekki og Balotelli slapp. Hann skoraði síðan sigurmarkið á 95. mínútu.

Balotelli fær tækifæri til að útskýra mál sitt fyrir klukkan sex á miðvikudagskvöldið en í kjölfarið kemur í ljós hvert framhald málsins verður.

Mario Balotelli er sóknarmaður en hefur engu að síður verið mjög duglegur að safna spjöldum og fékk meðal annars rautt spjald á móti Liverpool fyrr á þessu tímabili. Þá kom hann einnig inn á sem varamaður eins og á móti Tottenham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×