Íslenski boltinn

Sveinbjörn Jónasson gengur til liðs við Fram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinbjörn Jónasson í leik með Þrótti í fyrrasumar.
Sveinbjörn Jónasson í leik með Þrótti í fyrrasumar. Mynd/Anton
Markakóngur 1. deildar í knattspyrnu síðastliðið sumar, Sveinbjörn Jónasson, hefur gengið til liðs við Fram frá Þrótti Reykjavík. Sveinbjörn, sem verður 26 ára á árinu, skrifaði undir eins árs saming við Safamýrarliðið í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu Fram.

Sveinbjörn fór á kostum með Þrótti síðastliðið sumar. Hann skoraði alls 27 mörk í 26 leikjum í deild og bikar. Hann var kjörinn íþróttamaður Þróttar árið 2011.

Þá fór Sveinbjörn meðal annars illa með Framara í viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins þegar hann skoraði þrennu í sigri Þróttar.

„Knattspyrnudeild FRAM er mjög ánægð með að hafa náð samkomulagi við Sveinbjörn og býður hann hjartanlega velkominn í Safamýrina," segir á heimasíðu Fram.

Sveinbjörn, sem er ættaður af Austfjörðum og hefur spilað með Fjarðarbyggð og Grindavík á ferli sínum, mun mæta á sína fyrstu æfingu hjá Fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×