Enski boltinn

Jöfnunarmark Bellamy kom Liverpool á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool-menn fagna í kvöld.
Liverpool-menn fagna í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli á móti Manchester City í seinni leik liðanna í undanúrslitum keppninnar. Liverpool vann fyrri leikinn 1-0 og því 3-2 samanlagt. Liverpool mætir Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff City í úrslitaleiknum sem fer fram á Wembley 26. febrúar næstkomandi.

Craig Bellamy tryggði Liverpool sæti á Wembley með því að skora jöfnunarmarkið á 74. mínútu en City-menn komust tvisvar yfir í leiknum. Bellamy tryggði Liverpool því úrslitaleik á móti hans gömlu félögum í Cardiff.

Manchester City liðið er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni en er búið að detta út úr báðum bikarkeppnunum á stuttum tíma. Liverpool mætir hinsvegar hinu Manchester-liðinu í enska bikarnum um næstu helgi.

Nigel de Jong kom Manchester City í 1-0 á 31. mínútu með frábæru langskoti en Steven Gerrard jafnaði leikinn úr umdeildri vítaspyrnu níu mínútum síðar.

Edin Dzeko kom City aftur yfir á 67. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Aleksandar Kolarov en þá var röðin komin að Bellamy sem jafnaði metin eftir frábært samspil.

Bellamy fékk boltann frá Dirk Kuyt, fór í þríhyrningaspil við Glen Johnson og skoraði síðan laglega framhjá Joe Hart í markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×