Enski boltinn

Vinnie Jones: Bikarsigurinn á Liverpool besta fótboltaminningin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vinnie Jones fagnar með stuðningsmönnum Wimbledon.
Vinnie Jones fagnar með stuðningsmönnum Wimbledon. Nordic Photos / Getty Images
Vinnie Jones átti skrautlegan feril sem knattspyrnumaður en hann er í dag ekki síður þekktur fyrir afrek sín á hvíta tjaldinu. Sem leikmaður var hann þekktur fyrir að vera mikill nagli en hann lék lengst af með Wimbledon á sínum ferli.

Wimbledon komst í úrslit ensku bikarkeppninnar árið 1988 og vann þar afar óvæntan sigur á Liverpool. „Það er stór þáttur í mínu lífi - árið 1988 þegar við unnum Liverpool," sagði hann.

„Það er eitthvað sem gleymist aldrei. Það eru nokkur ár liðin en mér finnst eins og það hafi verið í gær."

„Hvað knattspyrnuna varðar er sá leikur í fyrsta sæti hjá mér. Ég hafði áður spilað með [utandeildarliðinu] Wealdstone í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar og svo komst ég í úrslitaleikinn nokkrum árum síðan þar sem við unnum hið ógnarsterka lið Liverpool."

Hann segir að stuðningsmenn Wimbledon hafi verið óviðjafnanlegir í stúkunni, þrátt fyrir að margfalt fleiri stuðningsmenn Liverpool hafi verið inn á vellinum. „Þetta var dagurinn þeirra og nutu þeir þess jafn mikið og leikmennirnir."

Wimbledon var stofnað í suðvesturhluta Lundúna árið 1889. Árið 2004 var félagið lagt niður í þáverandi mynd og flutt til Milton Keynes. Var félaginu gefið nýtt nafn - heitir nú MK Dons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×