Enski boltinn

Mata með eina markið í sigri Chelsea á QPR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Juan Mata skoraði af öryggi úr spyrnunni.
Juan Mata skoraði af öryggi úr spyrnunni. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea er komið í 5. umferð enska bikarsins í knattspyrnu eftir 1-0 útisigur á QPR á Loftus Road í Lundúnum. Juan Mata skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik úr vítaspyrnu.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði QPR en mátti sín lítils gegn gestunum frá Lundúnum og var skipt útaf í hálfleik. Federico Macheda kom inn á í stað Húsvíkingsins en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Eina mark leiksins kom úr vítaspyrnu Juan Mata á 61. mínútu eftir að brotið var á Daniel Sturridge. Heimamenn voru allt annað en sáttir við dóminn en Clint Hill var dæmdur brotlegur.

Chelsea menn urðu fyrir áfalli í síðari hálfleik þegar Brasilíumaðurinn Ramirez sneri illa upp á hné sitt. Stöðva þurfti leikinn í töluverðan tíma og var miðjumaðurinn snjalli á endanum borinn af velli.

Athygli vakti að leikmenn liðanna heilsuðust ekki fyrir leikinn eins og hefð er fyrir. Enska knattspyrnusambandið ákvað það í samráði við fulltrúa félaganna en fjallað var um málið á Vísi fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×