Enski boltinn

City hafnaði boði Liverpool um skipti á Carroll og Tevez

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Carroll hefur átt erfitt uppdráttar á Anfield.
Carroll hefur átt erfitt uppdráttar á Anfield. nordic photos / getty images
Á vefsíðu Guardian er fullyrt að Liverpool hafi gert Manchester City tilboð um skipti á sóknarmönnunum Andy Carroll og Carlos Tevez. City hafi hins vegar hafnað tilboðinu.

Fram kemur að Liverpool hafi sett sig í samband við City og spurst fyrir um þá upphæð sem félagið vildi fá fyrir Carlos Tevez. Í kjölfarið hafi forráðamenn Liverpool lagt til að félögin skiptu einfaldlega á leikmönnum. City hafi hins vegar hafnað tilboðinu um leið þrátt fyrir að Mancini hafi á sínum tíma lýst yfir aðdáun sinni á Carroll þegar hann var í herbúðum Newcastle.

Þessar fréttir koma töluvert á óvart enda hafa forráðamenn Liverpool ítrekað lýst yfir trú sinni á enska sóknarmanninum. Þrátt fyrir það hefur Carroll ekki spilað fleiri en þrjá leiki í röð og aðeins skorað sex mörk í 35 leikjum.

Carroll var keyptur til Liverpool í janúarglugganum á síðasta ári á 35 milljónir punda og er sem stendur áttundi dýrasti knattspyrnumaðurinn í sögu íþróttarinnar.

Talið er að Liverpool hafi verið tilbúið að verðleggja Carroll á 25 milljón pund sem er talin vera sú upphæð sem City vill fá fyrir Tevez. Tevez hefur ekkert spilað í ellefu vikur með City eftir að hann neitaði að hita upp sem varamaður í leik í Meistaradeild Evrópu. Síðan þá hefur andað afar köldu milli hans og Roberto Mancini, knattspyrnustjóra félagsins, sem gaf Tevez þó tækifæri á að biðjast afsökunar sem Argentínumaðurinn tók ekki til greina.

Samkvæmt Guardian er Tevez á leiðinni til Englands í næstu viku. Argentínumaðurinn hefur tvívegis verið sektaður af City fyrir framkomu sína og fjarveru. Hann hefur verið orðaður við Mílanó liðin AC og Inter auk PSG í París en ekkert komið út úr viðræðum félaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×