Enski boltinn

Redknapp trúir því að Tottenham geti unnið deildina

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að leikmenn liðsins trúi því að liðið geti unnið ensku úrvalsdeildina. Tottenham er með 45 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir 2-0 sigur gegn Everton í gær en liðið er með 45 stig, jafnmörg stig og Englandsmeistaralið Manchester United sem er í öðru sæti. Manchester City er efst með 48 stig þegar 20 umferðir eru búnar.

Tottenham gæti komist upp að hlið Man City með sigri gegn Úlfunum á laugardaginn. Fáir áttu von á þessu gengi hjá Tottenham eftir að liðið tapaði frekar illa í fyrstu tveimur umferðunum gegn Man City og Man Utd.

Frá þeim tíma hefur Tottenham aðeins tapað einum leik og segir Redknapp að sjálfstraust leikmanna sé alltaf að aukast. Hann er ekki í vafa um að leikmannahópurinn trúi því að liðið geti unnið titilinn en það hefur ekki gerst í 51 ár.

„Það er ekki vonlaust verkefni að vinna deildina. Við eigum möguleika, og leikmennirnir trúa því. William Gallas hefur sagt slíka hluti í búningsklefanum. Það eru gæði í leikmannahópnum og liðsandinn er góður og ef við leggjum hart að okkur eigum við möguleika. Næsti leikur er gegn Wolves, það er það eina sem skiptir máli , það verður erfiður leikur," sagði Redknapp við fréttamenn eftir 2-0 sigur liðsins í gær gegn Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×