Enski boltinn

Samningar tókust ekki á milli City og Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum báru viðræður AC Milan og Manchester City um kaup fyrrnefnda félagsins á Carlos Tevez ekki tilætlaðan árangur.

Tevez er til sölu en hann hefur verið í ónáðinni hjá Roberto Mancini, stjóra liðsins. Ítölsku stórliðin Inter og AC Milan hafa verið að bítast um hann og fyrr í dag greindi Massimo Moratti, forseti Inter, frá því að félagið væri búið að missa af Tevez.

Hins vegar hefur fréttastofa Sky Sports eftir sínum heimildum að viðræður á milli AC Milan og City hafi ekki borið árangur. Adriano Galliani, varaforesti AC Milan, flaug til Manchester í dag til að reyna að ná samningum en það tókst ekki.

AC Milan var sagt reiðubúið að selja Alexandre Pato til Paris Saint-Germain en leikmaðurinn sjálfur vildi ekki fara. Því er talið að hendur forráðamanna AC Milan séu bundnar og það geti ekki greitt jafn mikið fyrir Tevez og City vill fá fyrir kappann.

Tevez spilaði síðast með City gegn Birmingham í enska deildabikarnum í lok september. Hann neitaði síðan að koma inn á sem varmaður í leik gegn Bayern München og síðan þá hefur hann ekki einu sinni æft með liðinu.


Tengdar fréttir

Moratti: Inter búið að missa af Tevez

Massimo Moratti, forseti ítalska úrvalsdeildarfélagsins Inter, segir að félagið sé búið að missa Carlos Tevez úr greipunum en hann vilji frekar ganga til liðs við erkifjendurna í AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×