Enski boltinn

Dalglish kennir þreytu um tap Liverpool gegn Wigan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dalglish brúnaþungur á Anfield í dag.
Dalglish brúnaþungur á Anfield í dag. Nordic Photos / Getty
Kenny Dalglish þurfti að horfa upp á lærisveina sína tapa gegn Wigan á heimavelli í dag. Dalglish segir menn sína þreytta eftir tvo síðustu leiki liðsins

„Við virkuðum frekar þreyttir. Við héldum boltanum oft á tíðum vel en töpuðum honum á mikilvægum augnablikum. Það er ekki vegna getuleysis heldur þreytu," sagði Dalglish sem hefur verið gagnrýndur töluvert af stuðningsmönnum Liverpool undanfarnar vikur.

Liverpool tapaði 3-2 gegn QPR í vikunni eftir að hafa komist 2-0 yfir í leiknum. Dalglish segir þann leik og bikarleikinn gegn Stoke, sem vannst um síðustu helgi, sitja í leikmönnum sínum.

„Þegar þú spilar á sunnudegi, svo miðvikudegi og aftur á laugardegi tekur það sinn toll. Margir spiluðu alla leikina þrjá og það er ástæaðn fyrir slakri frammistöðu," sagði Dalglish sem segir leikmannahópinn ekki nógu breiðan til þess að geta hvílt lykilmenn.

Dalglish var ósáttur við að mark Luis Suarez snemma í síðari hálfleik var dæmt af.

„Það skiptir ekki máli hve vel eða illa þú spilar. Þú þarf alltaf smá heppni með þér og það er engin ástæða að mínu mati fyrir því að markið var dæmt af," sagði Dalglish sem kenndi óheppni einnig um eftir tapið gegn QPR.

Liverpool er í 7. sæti deildarinnar eftir leikinn, tveimur stigum á undan Sunderland og grönnum sínum Everton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×