Fótbolti

Ashley Cole dreymir um að spila hundraðasta landsleikinn á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole.
Ashley Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ashley Cole, vinstri bakvörður enska landsliðsins, dreymir um að spila tímamótaleik í úrslitaleik Evrópumótsins en enska landsliðið mætir Ítölum í átta liða úrslitunum á sunnudaginn.

Ashley Cole setti met í sigri Englendinga á Úkraínu í lokaleik riðlakeppninnar á EM í fótbolta þegar hann spilaði þá sinn 21. landsleik á stórmóti og bætti met Peter Shilton og David Beckham.

Ashley Cole, sem er 31 árs gamall, hefur spilað á öllum stórmótum enska landsliðsins undanfarin áratug og vantar nú aðeins þrjá leiki í að spila sinn hundraðasta landsleik. Hann hefur þó aldrei komist lengra en í átta liða úrslit.

„Ég hef verið það heppinn að ná að spila 97 leiki fyrir England og vonandi næ ég að spila hundraðasta landsleikinn í úrslitaleiknum," sagði Ashley Cole í viðtali við BBC.

„Ég hef aldrei upplifað það að vinna eitthvað með landsliðinu. Þetta er fjórði leikur minn í átta liða úrslitum og ég á ekki góðar minningar frá hinum þremur. Ég ætla að rifja upp hina leikina og sjá hvað ég get lært af þeim til að hjálpa mér í þessum leik," sagði Cole.

„Við vitum að þetta verður erfiður leikur á sunnudaginn en þeir segja að draumar geti ræst og vonandi rætist einn af draumum mínum í þessum leik," sagði Cole.

Þjálfaranum Roy Hodgson hefur tekist að skapa góða liðsheild innan enska liðsins eitthvað sem hefur oft vantað á undanförnum stórmótum. „Við erum eins og ellefu bolabítar sem gefast aldrei upp og eru tilbúnir að deyja fyrir hvern annan inn á vellinum. Það hefur gengið upp hingað til," sagði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×