Erlent

Segir rannsóknina ómarktæka

Niðurstöður sameindalíffræðingsins Gilles-Eric Séralini eru umdeildar. NordicPhotos/AFP
Niðurstöður sameindalíffræðingsins Gilles-Eric Séralini eru umdeildar. NordicPhotos/AFP
Nýleg frönsk rannsókn, sem bendir til þess að ákveðinn erfðabreyttur maís og illgresiseyðirinn Roundup valdi æxlismyndun, er ekki byggð á nægilega sterkum vísindalegum grunni til þess að ástæða sé til endurskoðunar á Evrópulöggjöf. Þetta kemur fram í frumniðurstöðum Matvælastofnunar Evrópu (EFSA), sem tók málið fyrir að ósk framkvæmdastjórnar ESB, eftir útkomu rannsóknarinnar.

EFSA sagði aðferðafræðina á bak við rannsóknina ekki vera í samræmi við vísindaleg vinnubrögð. Hún sé svo gölluð að ekki sé hægt að leggja hana til grundvallar aðgerðum að svo stöddu.

Áður en lokagerð úttektarinnar verður gefin út gefst aðstandendum rannsóknarinnar, sameindalíffræðingnum Gilles-Eric Séralini og samstarfsfólki hans, tækifæri til að færa nánari rök fyrir niðurstöðum sínum.

Enn sem komið er mun EFSA því ekki leggja til breytingar á öryggismati á umræddri maísafurð og ekki breyta yfirstandandi rannsókn á Roundup-illgresiseyðinum.

Rannsóknin varð tilefni mikillar umræðu um erfðabreyttar lífverur í matvælaiðnaði, en vísindamenn um allan heim, þar á meðal á Íslandi, gagnrýndu aðferðafræði Séralinis harðlega. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×