Fótbolti

Prandelli ánægður með Balotelli

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Prandelli fylgist náið með Balotelli á æfingu ítalska landsliðsins.
Prandelli fylgist náið með Balotelli á æfingu ítalska landsliðsins. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Cesare Prandelli þjálfari Ítalíu er mjög ánægður með framgöngu framherjans uppátækjasama Mario Balotelli á Evrópumeistaramótinu í Úkraínu og Póllandi. Þjálfarinn segir Balotelli í góðu ásigkomulagi fyrir úrslitaleikinn gegn Spáni í kvöld.

„Okkur hefur alltaf fundist hann mjög hæfileikaríkur. Hann er nú í umhverfi þar sem hann getur rætt við sanna sigurvegara, menn sem hafa unnið marga titla og náð góðum árangri,“ sagði Prandelli á blaðamannafundi í gær fyrir úrslitaleikinn í kvöld.

„Sú stund rennur alltaf upp hjá hverjum og einum að þú þurfir að vera nógu hugrakkur til að geta tekið inn ráðleggingar annarra því úrslitin verða að vera í fyrirrúmi. Við höfum beðið hann um að gera vissa hluti og á þessum tímapunkti gerir hann þá,“ sagði þjálfari ítalska landsliðsins.

Balotelli þarf að skora eitt mark til að ná forystunni í baráttunni um markakóngstitil keppninnar eftir að hafa skorað tvö mörk í undanúrslitunum og þrjú mörk alls í keppninni líkt og Mario Gomez, Cristiano Ronaldo, Alan Dzagoev og Mario Madzukic sem allir hafa lokið keppni. Spánverjarnir Fernando Torres og Cesc Fabregas hafa skorað tvö mörk hvor fyrir kvöldið en Prandelli skilur hvorki upp né niður í þeirri umræðu að spænska liðið leiki leiðinlegan fótbolta.

„Það tal á sér stað vegna þess að liðið hefur unnið mikið. Spánn leikur ekki leiðinlegan fótbolta, sama á hvernig það er litið,“ sagði Prandelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×